Erlent

93 ára gömul hjúkrunarkona sæmd heiðursorðu Bandaríkjahers

Augusta Chiwy fær heiðursorðuna.
Augusta Chiwy fær heiðursorðuna. mynd/AP
93 ára gömul hjúkrunarkona frá Belgíu hefur hlotið viðurkenningu Bandaríkjahers fyrir hugprýði. Augusta Chiwy, sem er af kongólskum ættum, kom hundruðum særðum Bandaríkjamönnum til bjargar í Ardennasókninni.

Það var sendiherra Bandaríkjanna í Belgíu, Howard Gutman, sem afhenti Chiwy verðlaunin. Hann sagði að upphaflega hefði verið talið að Chiwy hefði látist í orrustunni.

Rúmlega 67 ár eru liðin síðan hetjudáð Chiwy átti sér stað. Hún var sjálfboðaliði í hjálparstöð í bænum Bastogne í Belgíu. Orrustan átti sér stað árið 1944. Aðeins einn læknir annaðist særða hermenn Bandaríkjamanna.

Af æðruleysi ferðaðist Chiwy um skotgrafir Bandaríkjamanna og hlúði að særðum hermönnum.

Ardennasóknin, einnig þekkt sem Battle of the Bulge, voru síðustu stóru átök Bandamanna og Nasista. Orrustan stóð yfir í sex vikur. Talið er að 80.000 bandarískir hermenn hafi fallið í orrustunni en allt að helmingi fleiri Þjóðverjar létust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×