Erlent

Slapp ótrúlega vel þegar jeppi ók yfir hana

Fimm ára gömul kínversk telpa slapp ótrúlega vel þegar jeppi ók yfir hana á dögunum. Öryggismyndavél náði atvikinu á filmu sem hefur vakið mikla athygli um allan heim. Svo virðist sem stelpan hafi verið að rífast við fjölskyldu sína og vill ekki halda áfram þar sem þau eru að ganga eftir götu. Eftir nokkuð þref virðist sem konurnar sem eru með henni ákveði að skilja hana eftir, væntanlega til að kenna henni lexíu.

Í því sem konurnar ganga í burtu kemur Honda CRV jepplingur hinsvegar aðvífandi og sér ekki litlu stelpuna fyrr en of seint. Vegfarendur aðvara bílstjórann sem stöðvar bílinn en þá er stelpan föst undir honum miðjum. Fólkið hópast þá að bílnum og lyftir honum upp og að lokum losnar stúlkan. Hún var flutt á spítala með minniháttar meiðsl en mun ná sér að fullu.

Atvikið hefur vakið mikla athygli eins og áður sagði og ekki síst vegna þess að á dögunum var ekið yfir litla stúlku í Kína, tvívegis raunar, án þess að nokkur rétti henni hjálparhönd. Hún lést af sárum sínum en þessi var heppnari, ekki síst vegna þess hve vegfarendur voru fljótir til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×