Erlent

Krefjast afsökunarbeiðni frá Bandaríkjunum

Sérfræðingar skoða bandarísku njósnaflaugina í Íran.
Sérfræðingar skoða bandarísku njósnaflaugina í Íran. mynd/sepahnews
Yfirvöld í Íran neita að láta bandaríska njósnaflaug af hendi þrátt fyrir kröfu Bandaríkjahers.

Varnarmálaráðherrann Ahman Vahidi segir að flaugin sé nú eign Írans og að yfirvöld þar í landi ráði því hvað skuli gera við hana. Hann sagði að Bandaríkin ættu að biðjast fyrirgefningar fyrir að ráðast inn í lofthelgi Írans.

Flaugin er af gerðinni RQ-170 og hrapaði í austurhluta Írans fyrr í þessum mánuði. Yfirvöld í Íran segjast hafa skotið flaugina niður en talsmenn Bandaríkjahers eru á öðru máli - þeir segja flaugina hafa orðið fyrir bilun.

Í gær bárust fregnir af því að sérfræðingar hjá íranska hernum hefðu lokið við að rannsaka flaugina. Talið er að þeir hafi afritað mikið magn upplýsinga af tölvubúnaði flaugarinnar.

Íranski þingmaðurinn Parvuz Sorouri sagði í gær að upplýsingarnar yrðu notaðar til að skipuleggja málsókn gegn Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×