Erlent

Sex látnir eftir árásina í Liege og 123 manns særðust

Sex manns létust í skotárásinni í belgísku borginni Liege í gærdag og 123 særðust. Meðal látinna er 17 mánaða gamalt stúlkubarn sem læknar börðust lengi við að halda á lífi.

Lögreglan í Liege reynir nú að finna út hvað lá að baki því að hinn 33 ára gamli Nordine Amrani hóf skotárás sína og kastaði þremur handsprengjum að fjölmenni við strætóstöð í miðborg Liege áður en hann framdi sjálfsmorð. Allt bendir til þess að um stundarbrjálæði hafi verið að ræða.

Amrani er þekktur glæpamaður og hann hafði verið boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni í gærdag. Í stað þess að mæta þar hélt hann vopnaður í miðborgina og hóf árás sína.

Amrani hafði nýlega lokið fimm ára fangelsisdómi en árið 2007 fundust á heimili hans tugir skotvopna þar á meðal skammbyssur, rifflar og eldflaugarör ásamt um 9.000 skothylkjum. Þar að auki fundust tæplega 3.000 kannabisplöntur í garði við heimilið.

Mikil sorg ríkir í Liege eftir skotárásina en líklegt er að tala látinna eigi eftir að hækka enn þar sem fjórir af þeim 123 sem særðust liggja milli heims og helju. Borgaryfirvöld í Liege hafa ákveðið að halda mínútuþögn í borginni í dag til að minnast þeirra látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×