Innlent

Ofsaakstri dópaðs ökumanns lauk í Hvalfjarðargöngunum

Ofsaakstri ökumanns, undir áhrifum áfengis og fíkniefna, lauk með því í gærkvöldi að hann ók bílnum utan í kantstein í Hvalfjarðargöngum og gafst upp, umkringdur lögreglubílum frá þremur embættum.

Upphaflega ætlaði Borgarneslögreglan að stöðva hann vegna torkennilegs ökulags í gegnum bæinn, en þá gaf hann í og mældist á allt að 150 kílómetra hraða á hálum veginum undir Hafnarfjalli.

Lögreglubílar frá Akranesi og Reykjavík voru sendir til móts við hann og var naglamotta lögð út við hringtorgið við göngin, þar sem eitt dekk bílsins sprakk og þeyttist af felgunni. Hann hélt þó áfram ofan í göngin þar til hann lenti á kantinum, en í sama mund komu lögreglubílar frá Reykjavík á móti honum og bílar frá Akranesi og Borgarnesi voru á eftir honum.

Ökumaðurinn, sem er á þrítugsaldri, gistir nú fangageymslur á Akranesi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×