Innlent

Hvers minnist þið frá ykkar háskólaárum?

Frá háskólatorgi í Háskóla Íslands.
Frá háskólatorgi í Háskóla Íslands.
Í ár fagnar Háskóli Íslands aldarafmæli sínu og eru 89 ár liðin frá því að stúdentar héldu 1. desember í fyrsta sinn hátíðlegan. Af því tilefni vill Stúdentaráð hvetja alla stúdenta, fyrr og síðar, til þess að vera aftur stúdentar í dag og hefur verið opnaður sérstaka síðu á háskólavefnum þar sem minningum og vangaveltum stúdenta fyrr og síðar verður safnað saman.

„Hugsið aftur til ykkar stúdentsára. Hvað brann á ykkur á þegar þið voruð stúdentar og hvers minnist þið frá ykkar háskólaárum? Hugsum stórt og framkvæmum stórt á fullveldisdeginum 1. desember," segir í tilkynningu frá ráðinu.

„Frá árinu 1922 hafa stúdentar haldið fullveldisdaginn hátíðlegan. Hátíðarhöldin hafa vissulega breyst frá ári til árs en smám saman festi fullveldisdagshátíð stúdenta sig í sessi og skipar sérstakan stað í árlegu starfi Stúdentaráðs. Ár hvert hafa mismunandi málefni verið höfð í forgrunni, fyrstu árin var það bygging Stúdentagarða, en síðar voru þau landsmál sem helstu brunnu á stúdentum hverju sinni höfð í forgrunni.

Í ár fagnar Háskóli Íslands aldarafmæli sínu og eru 89 ár liðin frá því stúdentar héldu 1. desember í fyrsta sinn hátíðlegan. Í gegnum tíðina hafa íslenskir stúdentar haft mikil áhrif og getað áorkað mörgu í skjóli þess að sem stúdentar megum við hugsa stórt, dreyma stórt og framkvæma stórt," segir í tilkynningunni.

„Á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands ræddi Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega um mikilvægi þess að ungt fólk tæki virkan þátt í íslensku samfélagi og reyndi að hafa áhrif á það samfélag sem það brátt mun erfa. Til stúdenta í dag beinum við sömu vangaveltu - hvað brennur á ykkur? Og ennfremur - hvað ætlið þið að gera til að fylgja því eftir?“

Hægt er að deila minningum sínum á háskólavefnum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×