Innlent

Tobba hótar að stefna forlagi vegna Flick My Life-bókar

Tobba Marinósdóttir.
Tobba Marinósdóttir.
„Málið er að það gengur ekki upp að sumir þurfi að fara eftir reglum og aðrir ekki," segir Tobba Marinósdóttir fjölmiðlakona, en hún hefur látið lögfræðing senda útgáfunni Ókeibæ-kur viðvörun út af nýútkominni Flick My Life bók. Í bókinni, sem er unninn upp úr samnefndri heimasíðu, má finna tvær myndir af Tobbu sem eru teknar af Facebook-síðu hennar.

„Ég sem blaðamaður þarf að biðja um leyfi fyrir öllum myndum sem ég nota, enda er eignarréttur á myndunum," segir Tobba sem segist hafa brugðið dálítið þegar hún sá að andlit hennar og persóna væri notuð í bókinni. Tobba segir að það verði farið fram á miskabætur fyrir notkun myndanna í bókinni.

„Þetta er ekki spurning um húmorsleysi, heldur prinsipp. Og þetta snýst alls ekki um peningana," segir Tobba um málið.

Hugleikur Dagsson hjá Ókeibæ-kur segist ekki líta á þetta sem stórmál.

„Það er ekkert illa meint með þessu. Þetta er innsent efni sem við notum þarna og þar er gert grín að öllu og öllum," segir Hugleikur þegar Vísir hafði samband við hann. Hann segist telja að fleiri sjái netið en einhverja bók.

„Það er ekkert verið að fara að kippa bókinni úr hillum út af þessu," segir Hugleikur. Spurður hvort Tobba hafi ekki eitthvað til síns máls, enda myndirnar notaðar í heimildarleysi, svarar Hugleikur: „Það verður bara að spyrja Mark Zuckerberg (stofnanda og eiganda Facebook) um það hvenær maður á mynd og hvenær ekki."

Síðast féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2009 þar sem fjallað var um höfundarrétt mynda. Þá var Séð og Heyrt dæmt til þess að greiða manni 180 þúsund krónur fyrir að stela tveimur myndum í hans eigu af læstu vefsvæði á Myspace.com.

Þess má geta að það þurfti að farga fyrsta upplagi Flick My Life-bókarinnar, eða um þrjú þúsund eintökum. Ástæðan var sú að svarti flöturinn, sem átti að hylja viðkvæmar persónuupplýsingar, reyndist gegnsær.

Hugleikur segir það ekki standa til að eyða nýjasta upplaginu einnig vegna málssóknarinnar.

Ókeibæ-kur heyrir undir Forlagið, sem gefur út nýjustu skáldsögu Tobbu, Lýtalaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×