Innlent

Hættulegt að blanda saman áfengi og orkudrykkjum

Næringarfræðingur segir hættulegt að blanda saman orkudrykkjum og áfengi. Slíkt sé orðið mjög algengt á skemmtistöðum hér á landi og geti meðal annars leitt til hjartsláttartruflana.

Í Íslandi í dag í gær var fjallað um skaðleg áhrif orkudrykkja og rætt við móður drengs sem leita þurfti á bráðamóttöku vegna koffíneitrunar. Steinar B. Aðalbjörnsson næringarfræðingur segir ekki síður mikilvægt fyrir fullorðna að fara varlega í neyslu orkudrykkja en algengt er orðið að blanda orkudrykkjum saman við áfengi.

„Þetta er mjög algengt, til þess að þú endist út nóttina á djamminu þá eru margir sem fá sér orkudrykki til þess að halda árvekni og geta djammað lengur, en rannsóknir og dæmin hafa sýnt að þegar þú blandar saman koffíni og áfengi að þá geti það leitt til þess að þú upplifir alvarlegar hjartsláttartruflanir og það komi rangur taktur í hjartað og svo framvegis."

Hann segir þetta mjög algengt á skemmtistöðum hér á landi og það sé áhyggjuefni. „Núna sérðu á vel flestum stöðum ágætis hillupláss fyrir orkudrykki á börum Reykjavíkurborgar.

Þá villSteinar benda foreldrum sérstaklega á muninn á íþróttadrykkjum og orkudrykkjum en svo virðist sem neytendur geti auðveldlega ruglast á þessu tvennu.

„Íþrótta eða kolvetnadrykkir eftir því hvað þú kallar það þeir eiga rétt á sér í íþróttum þar sem að vökvatap er mikið, til dæmis eins og í fótboltaleik eða handboltaleik eða hlaupum og vísindin hafa sýnt fram á að það virkar. Í þessum íþróttadrykkjum er ekkert koffín og þar er munurinn, það er að vísu sykur sem hjálpar þér í íþróttinni en ekkert koffín."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×