Innlent

Löggan segir rappstríðið sviðsett - ríkissaksóknari ósammála

Lögregla telur að árás rapparans Móra á Erp Eyvindarson á síðasta ári hafi verið sviðsett en meðal annars kom hnífur og rafbyssa við sögu. Ríkissaksóknari er þessu ósammála og vill frekari rannsókn.

Það var í febrúar á síðasta ári sem rappararnir Erpur Eyvindarson og Móri áttu að mætast í þætti á útvarpsstöðinni X-inu, en sá síðarnefndi mætti til leiks með hund, hníf og rafbyssu.

Eins og sést á þessum myndum réðist Móri að Erpi með hnífnum og kom til nokkurra átaka á milli rapparanna og kærði Erpur árásina til lögreglu.

Lögregla lét hinsvegar málið niður falla eftir stuttlega rannsókn, og taldi að árásin hefði verið sviðsett.

Skjáskot úr öryggismyndavél í höfuðstöðvum útvarpsstöðvarinnar X-ins 9.77.mynd/365
Lögmaður Erps, Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og kærði hana til Ríkissaksóknara.

„Þeir telja að málið hafi ekki verið full rannsakað. Það hafi ekki verið teknar ítarlegar skýrslur af kærða og vitnum í málinu. Það var falið lögreglustjóranum að klára rannsókn málsins," segir Vilhjálmur Hans.

En hvað segir Vilhjámur við þeim vangaveltum að um sviðsettan atburð hafi verið að ræða?

„Það er auðvitað þannig að lögreglan vísar í það í frumskýrslu málsins, að svona sé alþekkt í Ameríku og þannig gerist kaupin á eyrinni. Ég held að það gerist ekki hér á Íslandi," segir hann.

Erpur Eyvindarson vildi lítið tjá sig um málið í samtali við fréttastofu, en sagðist hvorki hafa heyrt af né séð Móra síðan árásin átti sér stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×