Innlent

HIV smit: Þrír á sjötugs- og áttræðisaldri - einn þeirra lést

Samtals hafa þrettán fíkniefnaneytendur greinst með HIV það sem af er þessu ári. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum Landlæknisembættisins sem út komu í dag. Að sögn Haraldar Briem sóttvarnarlæknis einnkennir þessa hópsýkingu á meðal fíkla náin tengsl þeirra innbyrðis auk þess sem meðalaldur þeirra er nokkuð hár, eða 38 ár. Þá hafa fjórir gagnkynhneigðir bæst í hóp smitaðra á árinu og eru þrír þeirra á sjötugs- og áttræðisaldri. Einn þeirra lést úr alnæmi.

„Þetta gefur til kynna að læknar þurfa að vera vakandi fyrir einkennum alnæmis í öllum aldurshópum án tillits til þekktra áhættuþátta," skrifar Haraldur.

Þá kemur fram að alls hafa 274 einstaklingar sýkst af HIV frá því alnæmisfaraldurinn byrjaði á síðari hluta síðustu aldar. Þar af hafa 65 greinst með alnæmi og 39 látist af völdum sjúkdómsins. „Sýkingum meðal samkynhneigðra hefur fækkað hlutfallslega jafnt og þétt frá upphafi faraldursins," segir ennfremur. „Engu að síður er mikilvægt að samkynhneigðir haldi árvekni sinni, eins og aðrir, til að viðhalda þessum góða árangri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×