Erlent

Óttast mengunarslys á Nýja Sjálandi

Mynd/AP
Olía úr flutningaskipinu Rena hefur nú náð landi á austuströnd Nýja Sjálands en skipið strandaði fyrir fimm dögum undan ströndinni. Yfirvöld hafa beðið fólk um að halda sig fjarri ströndinni en tilraunum til að dæla þeirri olíu sem eftir er á tönkum skipsins hefur verið hætt sökum versnandi veðurs.

Búið er að dæla um tíu tonnum af eldsneyti af skipinu en það er aðeins dropi í hafið þar sem um borð voru 1700 tonn af olíu. Talið er að 20 til 30 tonn hafi þegar lekið í sjóinn og nær samfelldur olíuflekkurinn um fimm kílómetra frá skipinu, sem strandaði um tólf sjómílur undan strönd Nýja Sjálands.

Eins og staðan er nú er ekki talin mikil hætta á stóru olíuslysi en það gæti hinsvegar breyst ef skipið fer illa í hinu slæma veðri sem spáð er í dag. Þá gæti hinu fjölbreytta dýralífi á svæðinu verið mikil hætta búin.

Rena, sem er 47 þúsund tonna gámaskip siglir undir fána Líberíu en er í eigu grísks skipafélags. Eigendurnir hafa ekki gefið skýringar á strandinu en segjast vera í fullri samvinnu við björgunarliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×