Innlent

Fólki sagt upp vegna andlegra veikinda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dæmi eru um að vinnuveitendur hafi sagt fólki upp störfum þegar það veikist af geðsjúkdómum, segir Björt Ólafsdóttir, formaður Geðhjálpar. Samtökin eru því í þann mund að setja af stað aðgerðaráætlun á vinnustöðum sem miðar að því að athuga og hjálpa fyrirtækjum við að taka á því af stuðningi og ábyrgð þegar upp koma geðræn veikindi starfsmanna. Þannig vill Geðhjálp stuðla að því að fyrirtæki marki sér stefnu í starfsmannamálum og fylgi henni eftir þegar slíkt kemur upp.

Björt segir dæmin sanna að það vanti slíka stefnumörkun víða. „Það er líklegast vegna þess að umræðan um þetta er ekki háværi. Það er ennþá því miður viðkvæmt ef fólk veikist andlega," segir Björt. Hún segir að afleiðingin af þessu verði oft sú að stjórnendur viti ekki vel hvernig á að takast á við það þegar andleg veikindi koma upp. „Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni eða tvisvar að mál hafi ekki farið í réttan farveg og fólki hafi verið sagt upp, án viðunandi tilrauna til þess að styðja við stafsmanninn í veikindum sínum." segir Björt.

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur.

Björt segir að alþjóða geðheilbrigðisdagurinn, sem er haldinn um allan heim í dag, hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir þá sem vinna að hagsmunum geðsjúkra. „Það er mjög mikilvægt að alþjóðlegur dagur eins og 10. október sé viðhafður og það sé dagskrá og við fáum áheyrn í samfélaginu og að við minnum á hve mikilvæg barátta í geðheilbrigðismálum er," segir Björt. Hún segir að dagurinn sé sérstaklega mikilvægur í ljósi þess hve breiður hópur kemur að því að halda hann. Þannig taki starfsmenn á geðdeildum þátt með sölu svokallaðs brospinna og frjáls félagasamtök taki þátt. „Við erum að sameinast öll í dag til þess að minna á okkar málefni. Þannig að þetta er mjög góður vettvangur til að láta raddir okkar heyrast," segir Björt.

Vilja efla geðheilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarinnar

Björt segir að auk þess að vinna að aðgerðaráætlun á vinnustöðum vinni Geðhjálp nú að því að efla geðheilbrigðismál utan höfuðborgarinnar. Það sé mikilvægt að landsbyggðin gleymist ekki við flutning á málefni fatlaðra frá ríkinu til sveitarfélaga. Nú sé verið að skoða með könnunum og fyrirspurnum hvernig geðheilbrigðismálum utan höfuðborgarinnar sé háttað. „Eftir þá greiningu ætlum við að draga upp aðgerðaráætlun sem miðar að því að verða öflugur málsvari og hagsmunaaðili fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins sem getur illa talað sínu máli sjálft," segir Björt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×