Erlent

Sólhringsverkfall í Grikklandi - steinum kastað í lögreglu

Athafnalíf í Grikklandi hefur verið lamað frá miðnætti en þar stendur nú yfir sólarhrings allsherjarverkfall. Gríska óeirðarlögreglan þurfti á beita táragasi á mótmælendur sem köstuðu steinum í lögreglumenn.

Þúsundir verkamanna í Grikklandi lögðu niður störf á miðnætti til að mótmæla niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar. Verkfallið er fyrsta allsherjarverkfallið sem farið er í eftir ríkisstjórnin kynnti nýjan fasteignaskatt og tilkynnti um uppsagnir á þrjátíu þúsund ríkisstarfsmönnum í síðasta mánuði. Helstu ferðamannastöðum Aþenu var einnig lokað í dag vegna verkfallsins og þurftu ferðamenn því margir frá að hverfa.

Grikkjum er gert að skera duglega niður í ríkisfjármálunum eigi þeir að fá frekari lánafyrirgreiðslu frá Evrópu og beindu margir mótmælendur reiði sinni að erlendum kröfuhöfum. Að minnsta kosti 16 þúsund mótmælendur komu saman í miðborg Aþenu í dag, meirihluti þeirra mótmælti með friðsamlegum hætti en nokkrir tugir tóku upp á því að henda steinum að óeirðarlögreglunni sem hafði stillt sér upp fyrir utan þinghúsið. Aðrir reyndu að brjóta niður varnarveggi lögreglu og svaraði lögreglan með táragasi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×