Innlent

Biðla til þjóðarinnar að mótmæla friðsamlega

Frá mótmælum á Austurvelli
Frá mótmælum á Austurvelli mynd úr safni
Formaður landssamband lögreglumanna biðlar til þjóðarinnar að ætli fólk að mótmæla við setningu Alþingis laugardaginn fyrsta október, geri það það friðsamlega. "Það erum við sem stöndum innan við línurnar og þurfum að verja það sem þar er," segir formaðurinn.

Lögreglumenn eru afar ósáttir við niðurstöðu gerðardóms í kjaramálum þeirra, en niðurstaðan var kynnt lögreglumönnum í gær. Í pistli sem Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, ritar og birtir á heimasíðu sambandsins kemur fram að lögreglumönnum finnst ríkisvaldið sýna lítilsvirðingu og að nú geti lögreglumenn einfaldlega engu treyst sem kemur frá stjórnvöldum þessa lands.

Í pistlinum segir orðrétt: Það verður seint sagt um lögreglumenn að þeir séu óviljugir til verka þegar kemur að því að tryggja starfsfrið og þinghelgi Alþingis Íslendinga. Svo má hinsvegar mann þreyta að hann bogni. Alþingi verður sett laugardaginn fyrsta október og biðlar Snorri til þjóðarinnar, að ætli fólk að mótmæla við setninguna geri það það friðsamlega.

Í pistli Snorra á vef Landssambandsins segir ennfremur að Lögreglumenn muni nota næstu daga til þess að fara yfir þá stöðu sem upp er komin, og í kjölfarið á því endurmeta stöðu sína gagnvart ríkisvaldinu sem farið hefur fram með offorsi, yfirgangi og valdboði gegn stéttinni.

Þá hafa lögreglumenn á Vestfjörðum einnig sent frá sér ályktun þar sem segir að dómurinn sé niðurlæging við starfsstéttina. Ljóst sé að þessi niðurstaða muni strax valda neikvæðri þróun í löggæslu og óttast félagið stórfelldan flótta lögreglumanna úr stéttinni.

Þá krefst félagið þess að ríkisvaldið grípi til tafarlausra aðgerða til að leliðrétta kjör lögreglumanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×