Innlent

Samtök lánþega ætla að kæra vörslusviptingar í skjóli nætur

Guðmundur Andri Skúlason er formaður samtaka lánþega.
Guðmundur Andri Skúlason er formaður samtaka lánþega.
Samtök lánþega lýsa yfir fullkomnu skilningsleysi á tilburðum Lýsingar hf. og Vörslusviptinga vegna brottnáms bifreiða í skjóli nætur samkvæmt tilkynningu sem samtökin sendu frá sér.

Þar er því haldið fram að í slíku felist bæði brot á almennum hegningalögum, friðhelgi einkalífs ásamt því fullkomna virðingaleysi sem fyrirtækið sýnir almennum borgurum þessa lands með framferði sínu.

„Það að fyrirtækin kjósi að iðka lögbrot sín í skjóli nætur sýnir óumdeilanlega að gjörningurinn er framkvæmdur í vondri trú,“ segir svo í tilkynningunni.

Þá lýsa Samtök lánþega yfir undrun á þátttöku lögreglunnar í aðgerðum sem þessum, „en óumdeilt er að þau atvik er Samtök lánþega vísa hér til, eru framkvæmd án heimildar þar til bærra yfirvalda en með vitneskju lögreglu,“ eins og segir í tilkynningu samtakanna.

Samtökin skora á yfirvöld dómsmála og lögreglu að bregðast þegar við og tryggja að lögregla verji eigur almennings með því að stöðva þegar slíkar aðgerðir

Að lokum segir í tilkynningunni: „Fulltrúar fjármálafyrirtækja og Vörslusviptinga hafa ítrekað verið varaðir við því, að komi til þess að eign lánþega verði vörslusvipt án heimildar þá verði þegar lögð fram kæra á hendur öllum þeim aðilum sem að gjörningnum standa.

Lögmenn Samtaka lánþega vinna nú að kæru til lögreglu hvar hinir brotlegu verða nú kærðir fyrir brot á almennum hegningalögum.

Á næstu dögum verður nánar verður greint frá því hvaða aðila er þar um að ræða og hvort krafist verður skoðunar á ábyrgð lögregluyfirvalda vegna aðgerðaleysis þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×