Erlent

Almenningur virðist sáttur við tillögur Obama um aukaskatt á ríka

Ný könnun gefur til kynna að meirihluti Bandaríkjamanna séu sammála því að skattleggja beri milljónamæringa meira en gert hefur verið. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur mætt mikilli andstöðu á meðal Repúblikana á þingi við þær hugmyndir að hækka skatt á heimilum þar sem tekjurnar nema einni milljón dollara, króna eða meira á ári, sem jafngildir 118 milljónum íslenskra króna.

Skattatillagan hefur verið kölluð Buffet reglan í höfuðið á einum ríkasta manni heims sem skrifaði í sumar grein í New York Times þar sem hann benti á að á síðasta ári hefði hann greitt hlutfallslega mun minna í skatt en meðalmaðurinn og bað hann Obama vinsamlegast um að hækka hjá sér skattinn. Obama tók hann á orðinu en hugmyndin er umdeild á þinginu.

Nýja könnunin, sem framkvæmd var af netmiðlinum Daily Kos, sem hefur reyndar sterk tengsl við Demókrataflokkinn, sýnir hinsvegar viðtækan stuðning á meðal almennings og eru næstum þrír af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum hlynntir henni. Það sem meira er, stuðningurinn er þverpólitískur og til dæmis styðja 66 prósent þeirra sem telja sig til Repúblikana hana og rétt rúmur helmingur þeirra sem segjast vera í Teboðshreyfingunni svokölluðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×