Innlent

Verðhækkanir ganga á ávinning kjarasamninga

Heimir Már Pétursson skrifar
Verðhækkanir á mjólkurvörum draga úr þeim ávinningi sem nýgerðir kjarasamningar áttu að færa launafólki, segir hagfræðingur Alþýðusambandsins. Tilkynnt var í dag um verðhækkun mjólkurvara um næstu mánaðamót um fjögur til sjö prósent.

Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að heildsöluverð á mjólk og mjólkurvörum, sem nefndin verðleggur, hækki hinn 1. júlí n.k. um 4,25%. Þó hækkar verð á smjöri enn meira eða um 6,7% og mjólkurduft til iðnaðar um 6%. Á sama tíma hækkar afurðastöðvaverð til kúabænda um 3,25 kr/ltr mjólkur, þ.e. úr 74,38 kr í 77,63 kr/ltr., eða um 4,4%. Verðlagsnefnd segir ástæður þessara verðbreytinga vera hækkun launa og hækkanir á aðföngum við búrekstur.

„Þetta mun auðvitað hafa þau áhrif að verðbólga verður hér meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og sú kaupmáttaraukning sem gert var ráð fyrir að nýgerðir kjarasamningar myndu skila launafólki verða þá minni en ella," segir Henný Hanz hagfræðingur Alþýðusambandsins. Kjarasamningarnir kalli ekki á þessar hækkanir á mjólkurvörum.

„Eins og þessar hækkanir sem við eru að sjá núna á mjólkurvörum; þær eru talsvert umfram það sem launahækkanir gefa tilefni til. Þannig að það er ekki hægt að skýra þær með kjarasamningum, það er alveg ljóst," segir Henný.

Þá gagnrýnir hún hækkanir fleiri aðila, meðal annars hjá hinu opinbera. Það sé miður að fyrirtæki og stofnanir fari þessa leið á sama tíma og verið sé að reyna að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Vonandi leiði þessar hækkanir ekki til víxlhækkana launa og verðlags eins og á árum áður. „Við treystum á að svo verði ekki."

Henný segir mjólkurvörur stóran hluta af neyslu heimilanna og áhrif verðhækkananna því töluverð á verðbólguna. Þessar hækkanir geti að lokum bitið fyrirtækin sjálf. Verðhækkanir fyrirtækja gætu því verið eins og að pissa í skóinn sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×