Innlent

Innbrot í skartgripaverslun: „Þeir réðust á skápana með sleggju“

Svona var aðkoman þegar Elísabet kom í verslunina klukkan átta í morgun
Svona var aðkoman þegar Elísabet kom í verslunina klukkan átta í morgun Mynd/Elísabet
„Ég kom klukkan átta í morgun og það var eins og handsprengju hefði verið kastað hingað inn, glerbrotin voru eins og snjór yfir öllu," segir Elísabet Elíasdóttir, annar tveggja eigenda skartgripaverslunarinnar Úr og skartgripir - Nonni Gull í Hafnarfirði.

Brotist var inn í verslunina í nótt og komust þjófarnir undan áður en lögregla kom á vettvang. Þrátt fyrir að lögregla hafi leitað í nágreninu í nótt bar sú leit ekki árangur og ganga þjófarnir enn lausir.

Elísabet segir að þjófarnir hafi verið tveir og þegar þeir voru búnir að brjóta sér leið inn í verslunina hafi þeir gengið beint að verki. „Þeir réðust á skápana með sleggju og brutu þá þannig - það var allt út í glerbrotum hérna," segir Elísabet og tekur fram að þeir hafi aðallega tekið skartgripi úr gulli. „Svo tóku þeir líka sýnishorn af trúlofunarhringjum en þeir eru bara plat," segir hún.

Vitni sem sá þjófana í nótt segir að þeir hafi verið í hermannabuxum, dökkum hettupeysum og með klúta bundna fyrir andlitin. Lögreglan fer nú yfir öryggismyndavélar en fjórar slíkar eru í versluninni.

„Þeir voru greinilega búnir að kanna búðina. Það komu hér þrír menn í gær og voru voðalega laumulegir og dulafullir. Þeir voru eins og þeir væru með símamyndavélar og töluðu ekkert við mig," segir Elísabet sem vill þó ekki fullyrða að það hafi verið þeir sem brutust inn í verslunina í nótt.

Lögreglan rannsakar nú málið en þeir sem hafa upplýsingar um innbrotið eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×