Innlent

Gefa vinnu sína á jónsmessugleði í Garðabæ

Kórsöngur á jónsmessugleðinni 2009
Kórsöngur á jónsmessugleðinni 2009 Mynd/Gróska
Jónsmessugleði myndlistarsamtakanna Grósku er fjölskylduhátíð sem haldin er í Garðabæ í dag. Gleðin stendur frá klukkan 18-22 og er á margan hátt ólík hinum hefðbundnu fjölskylduhátíðum.

Til að mynda munu allir sem að hátíðinni koma gefa vinnu sína, og segir í fréttatilkynningu frá Grósku að þetta sé gert svo að fjársýsluhlið lífsins flækist ekki fyrir gleðskapnum. Gleðin snúist að því að koma saman.

Þá verður engin auglýst dagskrá þar sem skipuleggjendur hátíðarinnar vilja ekki „binda fólk við sviðið“. Margt verður þó í gangi og má þar nefna tónlistaratriði, sandkastalagerð, ljóðalestur og kórsöng, Birgitta Haukdal tekur lagið og skátar kveikja elda og grilla skykurpúða. Þá má einnig bera augum myndlistarsýningu, hlusta á jazz af ýmsum gerðum og taka þátt í veifugerð.

Hátíðin fer fram við ylströndina og Strandstíg/Sagnaslóð og hefst sem fyrr segir klukkan 18:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×