Fótbolti

Hiddink gefur loðin svör um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink á hliðarlínunni í gær.
Guus Hiddink á hliðarlínunni í gær. Nordic Photos / AFP
Guus Hiddink vildi ekki staðfesta hvort hann yrði enn landsliðsþjálfari Tyrklands þegar að liðið mætir Kasakstan í september næstkomandi.

Hiddink hefur verið sterklega orðaður við Chelsea eftir að Carlo Ancelotti var sagt upp störfum þar. Hiddink stýrði Chelsea í þrjá mánuði árið 2009 og náði góðum árangri með liðinu.

John Terry, fyrirliði Chelsea, sagði á dögunum að hann myndi fagna því að fá Hiddink aftur til félagsins.

„Það skil ég vel enda átti ég yndislegan tíma hjá félaginu," sagði Hiddink sem vildi engu svara um hvort hann yrði áfram við stjórnvölinn í næsta landsleik Tyrklands, gegn Kasakstan í haust.

„Ég er ekki í þeirri stöðu til að svara því. Ég get þó sagt að ég er með samning til 2012."

Enskir fjölmiðlar halda því þó fram að Hiddink sé með klausu í sínum samningi sem gerir honum kleift að losna undan sínum skyldum í Tyrklandi.

„Þegar hin og þessi mál koma upp getum við rætt saman. Það er mjög stutt og skýrt svar."

Spurður hvort að hann hafi verið í sambandi við Roman Abramovic, eiganda Chelsea, sagði hann einfaldlega: „Ég er í fríi núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×