Erlent

Réttarhöldin yfir Strauss-Kahn hefjast í dag

Réttarhöldin yfir Dominique Strauss-Kahn fyrrum forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefjast í New York í dag.

Fyrirtaka verður í máli ákæruvaldsins gegn Strauss-Kahn og munu lögmenn hans fara fram á að fá í hendurnar öll rannsóknargögn lögreglunnar í málinu gegn honum.

Alls er ákæran gegn Strauss-Kahn í sjö liðum þar á meðal kynferðisleg árás á herbergisþernu á Sofitel hótelinu í New York. Reiknað er með að Strauss-Kahn lýsi sig saklausan af öllum ákærum við fyrirtöku málsins.

Samkvæmt frétt um málið á CNN hefur einn lögmanna Strauss-Kahn sent dómara málsins bréf þar sem hann kvartar undan því að búið sé að skaða rétt Strauss-Kahn til réttlátrar dómsmeðferðar þar sem búið sé að opinbera gögn í málinu áður en lögmenn hans hafa fengið þau í hendurnar.

Strauss-Kahn dvelur nú í stofufangelsi umkringdur öryggisvörðum í lúxusíbúð í Tribeca hverfinu í New York. Honum var sleppt úr Rikers Island fangelsinu í síðasta mánuði gegn 6 milljón dollara tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×