Enski boltinn

Heiðar og Brynjar Björn framlengja samninga sína

Heiðar Fagnar marki með QPR
Heiðar Fagnar marki með QPR Mynd/Getty Images
Heiðar Helguson skrifaði í morgun undir eins árs samning við QPR. Liðið mun leika í ensku úrvalsdeildinni á næsta ári eftir að hafa sigrað Championship-deildina með nokkrum yfirburðum. Heiðar þótti spila mjög vel á tímabilinu og legið í loftinu að samningur hans yrði framlengdur.

Neil Warnock knattspyrnustjóri QPR segir, í samtali við heimasíðu QPR, Heiðar hafa spilað gríðarlega stórt hlutverk með liðinu á nýloknu tímabili. Hann reiknar með því að hann verði í lykilhlutverki í úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

„Fólk gleymir hve marga leiki hann spilaði fyrir okkur á síðasta tímabili. Hann var stórkostlegur. Það eru ekki aðeins mörkin sem hann skorar heldur leikur hans í heild sinni."

Þá er ljóst að Brynjar Björn Gunnarsson mun framlengja samning sinn við Reading um eitt ár. Reading var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni en beið lægri hlut fyrir Swansea í úrslitaleik á Wembley.

Á heimasíðu Reading kemur fram að Brynjar sé leikjahæstur af núverandi leikmönnum félagsins. Sagt er að fagmennska Brynjars og hæfileiki hans til þess að leysa ólíkar stöður geri hann að verðmætum leikmanni fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×