Enski boltinn

Henderson og Doni orðaðir við Liverpool

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jordan Henderson í leik með Sunderland
Jordan Henderson í leik með Sunderland Mynd/Getty Images
Enski landsliðsmaðurinn Jordan Henderson er sterklega orðaður við Liverpool. Liverpool eru sagðir hafa gert tvö tilboð, síðast upp á 16 milljón pund en báðum tilboðum var hafnað af Sunderland. Talið er að Sunderland vilji 20 milljón pund fyrir leikmanninn.

Henderson skrifaði undir fimm ára samning við Sunderland á síðasta ári og því liggur Sunderland ekki á að selja hans. Á Guardian kemur hins vegar fram að Henderson sé óþreyjufullur að ganga frá sínum málum áður en Evrópumót U-21 hefst í Danmörku um helgina. Það er talið auka líkurnar á því að félögin semji um kaupverð í vikunni.

Kenny Dalglish þjálfari Liverpool er einnig sagður á höttunum eftir brasilíska markverðinum Alexander Doni hjá Roma. Doni sem hefur verið varamarkvörður fyrir Julio Sergio á undanförnum árum vill ganga til liðs við Liverpool ef marka má umboðsmann kappans Ovidio Colucci.

„Ég ræddi við Roma í gær og þeir staðfestu að þeir ættu í viðræðum við Liverpool varðandi félagsskipti Doni. Þegar niðurstaða næst í það mál göngum við frá persónulegum skilmálum við Liverpool,“ sagði Ovidio Colucci við breska fjölmiðla.  

Doni er 31 árs og yrði að öllum líkindum varamarkvörður fyrir Spánverjann José Reina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×