Lífið

Miðarnir á Gusgus rjúka út - Aðeins hundrað eftir

Það hefur verið mikill hamagangur í öskjunni á miðasöluvefnum midi.is í dag. Miðasala á útgáfutónleika Gusgus, sem verða á Nasa 18. júní, hófst í morgun klukkan 10 og nánast á slaginu byrjuðu miðarnir að rjúka út af krafti.

Rétt í þessu voru aðeins hundrað miðar eftir og meðlimir Gusgus bæði í skýjunum og hrærðir yfir þessum frábæru viðtökum.

Það er ljóst að þeir sem ætla að næla sér í síðustu miðana þurfa að hafa hraðar hendur.

Gusgus gaf í síðustu viku út Arabian Horse, nýja plötu sem hefur vakið mikla athygli og fengið toppdóma hér heima og út um allan heim. Það er greinilegt að platan leggst vel í landann og að margir bíða spenntir eftir því að sjá hina nýju Gusgus, með söngvarana Högna í Hjaltalín, Daníel Ágúst og Urði Hákonardóttur í forgrunni.

Lífið á Vísi er í samstarfi við Gusgus um útgáfutónleikana á Nasa. Aðdáendur Gusgus sem komast ekki á tónleikana komast því í feitt vegna þess að þessir tímamótatónleikar verða í beinni útsendingu hér á Vísi. Við ætlum einnig að fylgjast rækilega með undirbúningi þeirra og vera á svæðinu um kvöldið þegar allt gengur af göflunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.