Innlent

Mannorð Ólafs verði hreinsað

Ættingjar Ólafs Donalds Helgasonar, sem sat í gæsluvarðhaldi grunaður um morð á eiginkonu sinni, vilja að mannorð Ólafs verði hreinsað. Hann hafi setið í gæsluvarðhaldi og verið dæmdur af samfélaginu fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Ólafur Donald Helgason var hnepptur í gæsluvarðhalds grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína Hallgerði Valsdóttir. Hann var látinn laus um viku síðar eftir að rannsókn leiddi í ljós að hann hefði ekki getað verið valdur dauða hennar.

„Ég heyrði í honum síðast þegar hann hringdi í mig klukkan níu í morgun. Hann er mjög brotinn og var grátandi í símanum við mig. Ég held að þetta sé að renna upp fyrir honum og koma meira fram. Hann er búinn að vera í afneitun og á erfitt með að trúa þessu öllu," segir Helgi Helgason, bróðir Ólafs.

Ólafur fór beint í meðferð á Vogi eftir að hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í byrjun síðustu viku. Helgi segist aldrei hafa trúað því að bróðir hans væri sekur. „Allir sem þekkja Óla vita að hann hefur það ekki í sér að vera morðingi. Það var það síðasta sem við hugsuðum öll, að það væri ekki fræðilegur möguleiki að hann myndi framkvæma svona hlut. Ekki fræðilegur," segir Helgi.

Helgi gekk sjálfur í gegnum erfiða tíma. Sonur hans Eggert lést í svefni þessa sömu viku og átti útförin að fara fram daginn eftir að bróðir hans var handtekinn fyrir morð. „Það var eiginlega náðarhöggið fyrir mig. Eg er eiginlega búinn að vera dofinn síðan," segir Helgi og bætir við: „Mér finnst að það eigi að hreinsa bróðir minn opinberlega af lögreglunnar hálfu. Mér finnst ekki þægilegt að hafa þetta yfir bróðir mínum."

Útför Hallgerðar fer fram á morgun, þriðjudaginn 31. maí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×