Enski boltinn

Vill Giggs sækja 75 þúsund tístara til saka?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Giggs í leik með Manchester United.
Ryan Giggs í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Mikið hefur verið fjallað um málefni Ryan Giggs í enskum fjölmiðlum eftir að þau voru tekin fyrir í fyrirspurnartíma á breska þinginu í dag.

Forsaga málsins er sú að Giggs fékk í gegn umfjöllunarbann um einkalíf sitt vegna meints framhjáhalds hans með konu að nafni Imogen Thomas. Bannið fékk hann eftir að Thomas vildi segja sögu sína í The Sun.

Hún er þekkt í Bretlandi fyrir þátttöku sína í Big Brother-sjónvarpsþættinum auk þess sem hún var kosin Ungfrú Wales árið 2003.

Fjölmiðlar í Bretlandi þurftu því að sitja á sér en skoskt dagblað birti um helgina mynd af Giggs, reyndar með svartan borða yfir augun og án þess að nefna hann á nafn.

Í kjölfarið fékk málið mikla umræðu á Twitter-samskiptasíðunni sem gerði þetta að enn stærra máli.

Lögmaður Giggs hefur nú beðið dómstóla í Bretlandi að fara fram á það að Twitter reiði fram upplýsingar um þá 75 þúsund notendur á síðu sinni sem nefndu Giggs á nafn í færslum tengdu þessu máli.

Það var einmitt þess vegna sem að þingmaðurinn John Hemming steig fram í breska þinginu í dag og nefndi Giggs á nafn. Hann nýtur sérstakrar friðhelgi sem þingmaður og mátti því nefna Giggs á nafn í þessu samhengi.

Imogen Thomas.Nordic Photos / Getty Images
Sagði Hemming að það væri vitaskuld óraunhæft að fangelsa 75 þúsund manns fyrir að nefna Giggs á nafn í færslum sínum.

Hemming sagði svo í viðtali við BBC að hann hefði nýtt sér þessa heimild sína eftir að Giggs gerði sig líklegan til að lögsækja allan þennan fjölda fyrir svo smávægilegt mál eins og að bera út slúður um hann.

Hemming var talsvert gagnrýndur af öðrum þingmönnum fyrir að beita þessu úrræði. Mörgum finnst að hann hafi þar með gert lítið úr þeim lögum sem vernduðu Giggs í þessu máli.

Í grunninn snýst málið um rétt einstaklings til að vernda einkalíf sitt frá ágangi fjölmiðlamanna - hvort sem þeir eru þekktir og ríkir knattspyrnumenn eða ekki. Hvort Giggs ætlar að ganga lengra en hann hefur gert vegna þessa verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×