Innlent

Flestir ferðamenn í apríl Bretar - Íslendingar ferðast helmingi meira

Leifsstöð.
Leifsstöð.
Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 34.333 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð í apríl síðastliðnum en þeir hafa aldrei áður farið yfir 30 þúsund í aprílmánuði samkvæmt tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Um er að ræða 40% aukningu frá því í apríl á síðasta ári. Gosið í Eyjafjallajökli hafði veruleg áhrif á fjölda ferðamanna í apríl í fyrra og eru þar af leiðandi sveiflur miklar í tölunum milli ára. Fjölmennustu aprílmánuðir til þessa voru 2007 og 2009 þegar erlendir ferðamenn voru rétt innan við 28 þúsund.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í apríl frá Bretlandi eða um fimmtungur ferðamanna (20,8%), einn af hverjum tíu (10,3%) frá Bandaríkjunum  og svipaður fjöldi frá Danmörku (9,8%) og Noregi (9,3%).

Alls hafa 104 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu það sem af er ári eða 15.500 fleiri ferðamenn en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 17,5% milli ára.

Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá aukningu frá öllum mörkuðum, langmest hefur hún þó verið frá N-Ameríku eða 44%, þar næst kemur Mið- og Suður Evrópa með 27,8% aukningu og í þriðja sæti eru Norðurlöndin með um 17% aukningu.

Aukning frá Bretlandi mælist minni eða tæp 8% og tæp 4% frá löndum sem talin eru sameiginlega og flokkast undir ,,annað“.

Brottförum Íslendinga fjölgaði um 50% í apríl frá því í fyrra, voru 29 þúsund í ár en 19 þúsund í fyrra. Brottförum Íslendinga frá áramótum hefur fjölgað um fimmtung í samanburði við sama tímabil árið 2009.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×