Erlent

Fjöldi fólks bíður fyrir utan Westminster Abbey

Gríðarleg stemning hefur myndast í London þar sem brúðkaupið fer fram á morgun
Gríðarleg stemning hefur myndast í London þar sem brúðkaupið fer fram á morgun
„Við erum búin að hitta fólk frá Kanada og frá Simbabwe. Hér er fólk alls staðar að úr heiminum sem er búið að tjalda við Westmnister Abbey og ætlar að bíða hér þangað til á morgun, til að sjá brúðina ganga inn," segir Helga Arnardóttir, fréttamaður, sem er stödd í London. Þegar hafa allt að hundrað manns komið sér fyrir utan við kirkjuna og skín eftirvæntingin úr hverju andliti.

Um 20 stiga hiti og sól er í borginni og eru vonir bundnar við að veðrið haldi sér til morguns. Þó er búið að gera ráðstafanir ef veður breytist til hins verra og eru því til reiðu tveir hestvagnar fyrir brúðhjónin til að komst á milli staða á morgun, annar opinn og hinn lokaður.

Myndir af brúðhjónunum verðandi prýða ótrúlegustu hluti. Hér sjást þau á bollakökum
Enn hefur ekki verið opinberað hver hannaði kjól Kate Middleton en sögur herma að hún hafi jafnvel látið hanna fyrir sig allt að þrjá kjóla, bara til öryggis ef eitthvað myndi koma upp á. Þá er talið að hönnuðir Alexander McQueen hafi hannað minnst einn kjól fyrir brúðina verðandi.

Kate ætlar að koma Vilhjálmi á óvart

Áhangendur brúðhjónanna bíða spenntir eftir að sjá kjól Kate á morgun. Vilhjálmur prins, heitmaður hennar, verður þó síðastur manna til að sjá kjólinn enda koma sjónvarpsáhorfendur heima í stofu til með að sjá hann á undan Vilhjálmi sem ber ekki dýrðina augum fyrr en Kate er komin inn í kirkjuna á morgun.

„Hún hefur haft á orði að hann þekki öll fötin hennar og að hún vilji koma honum virkilega á óvart," segir Helga.

Þá hafa jafnvel verið veðmál um hvort Kate verður með blóm í hárinu á morgun eða kórónu.



Fólk á götum Lundúna hefur tekið upp á ýmsu til að koma sér í rétta gírinn fyrir brúðkaupið á morgun
Ótrúleg stemning í borginni

„Það er ótrúlegt að vera hér í borginni. Fólk skiptist algjörlega í tvo hópa. Það eru konungssinnarnir sem ganga helst til langt til að sjá brúðhjónin með eigin augum, þó ekki sé nema í fimm sekúntur. Síðan eru það Bretarnir sem stendur nett á sama en eru samt þakklátir fyrir auka frídag," segir Helga.

Fylgst verður með undirbúningi brúðkaupsins og athöfninni sjálfri í beinni útsendingu á morgun. Athöfnin hefst klukkan tíu að íslenskum tíma í fyrramálið. Hún er rúmur klukkutími. Eftir það fara þau í hestvagni frá Westminster Abbey til Buckingham-hallar.

Bein útsending hefst klukkan sjö í fyrramálið hér á Vísi og á Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×