Fótbolti

Wenger tók ekki í höndina á Dalglish í leikslok

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Arsene Wenger ræðir hér málin við Andre Marriner dómara í leikslok og var allt annað en sáttur.
Arsene Wenger ræðir hér málin við Andre Marriner dómara í leikslok og var allt annað en sáttur. Nordic Photos/Getty Images
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal var alls ekki sáttur við að Liverpool skyldi skora úr vítaspyrnu og jafna metin þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir þann uppbótartíma sem aðstoðardómarinn hafði gefið til kynna á Emirates vellinum í dag. Arsenal og Liverpool skildu jöfn, 1-1, en bæði mörkin voru skoruð úr vítaspyrnum eftir að venjulegur leiktími var liðinn.

Wenger lét óánægju sína í ljós í leikslok þegar hann gekk að Andre Marriner dómara leiksins en franski knattspyrnustjórinn lenti einnig í orðaskaki við Kenny Dalglish knattspyrnustjóra Liverpool undir lok leiksins og hann neitaði að taka í höndina á Skotanum.

Wenger var spurður að því í sjónvarpsviðtali eftir leikinn hvað hefði gengið á við hliðarlínuna þegar hann reifst við Dalglish eftir að Dirk Kuyt hafði jafnað metin úr vítinu.

„Ég held ég endurtaki ekki það sem sagt var. Ég skil reyndar ekki afhverju það er fréttaefni það sem við segjum á hliðarlínunni – það er ekki þess virði að eyða tíma í það,“ sagði Wenger en hann telur að Liverpool hefði aldrei átt að fá vítaspyrnuna undir lok leiksins.

„Mér fannst það ekki rétt að láta leikinn fara langt yfir uppbótartímann – Lucas var klókur í vítateignum, stoppaði á réttum tíma og fékk vítið,“  sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×