Mikil ólga er í norðurhluta Afganistan eftir að fregnir bárust að kristinn klerkur brenndi Kóraninn í Flórída í fyrr í vikunni.
Samkvæmt heimasíðu breska blaðsins Guardian þá voru sjö starfsmenn Sameinuðu þjóðanna drepnir í borginni Mazar-e-Sharif eftir að ofbeldisfull mótmæli hófust vegna bókabrennunnar.
Fjórir þeirra sem voru drepnir voru öryggisverðir. Meðal þeirra sem létu lífið var 33 ára gömul sænsk kona, sem starfaði á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Tveir af þeim sjö sem voru drepnir, voru afhöfðaðir. 20 mótmælendur voru handteknir í nótt í borginni, sem þykir friðsæl að öllu jöfnu.
Það var klerkurinn Terry Jones sem kom að brennunni. Hann varð heimsfrægur á síðasta ári þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að brenna Kóraninn í tilefni af því að níu ár væru liðin frá hinni örlagaríku hryðjuverkaárás þann 11. september árið 2001.
Þá hætti hann við brennuna eftir að David Petraeus, hershöfðingi bandaríska hersins í Afganistan, bað hann um að láta af brennunni af ótta við óeirðir í Afganistan.
Kirkjan hans Terrys lét hinsvegar verða af bókabrennunni í síðasta mánuði, og var klerkurinn sjálfur viðstaddur samkvæmt Guardian.
