Enski boltinn

Torres þarf að bæta sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres í leiknum í gær.
Fernando Torres í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, hefur enn trú á Fernando Torres en segir að hann þurfi vissulega að bæta sig.

Torres hefur enn ekki skorað með Chelsea síðan að hann var keyptur til félagsins fyrir 50 milljónir punda frá Liverpool í lok janúar.

Hann var settur á varamannabekk liðsins er Chelsea gerði 1-1 jafntefli við Stoke í gær en spilaði síðasta hálftíma leiksins, án þess að láta mikið af sér kveða.

„Það er augljóst að hann þarf að bæta sig,“ sagði Ancelotti í samtali við enska fjölmiðla.

„Hann hefur verið hérna í tvo mánuði og það getur vissulega gerst að hann eigi erfitt með að ná góðu sambandi við alla leikmennina inn á vellinum.“

„Stundum kemur hann með mjög góð hlaup fyrir aftan varnarmann andstæðingsins en boltinn kemur ekki á þeim tíma sem hann vill fá hann. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta.“

Ancelotti segir þó það algera fásinnu að Didier Drogba sé óánægður með að Torres hafi komið til liðsins og sé tregur til að gefa á hann í leikjum.

„Þetta er bara eitthvað sem er rætt á pöbbunum. Leikmenn gefa alltaf boltann ef það er möguleiki til þess. Ég hef rætt við Drogba sem telur að Torres hafi verið fenginn til að styrkja liðið. Hann er því ánægður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×