Erlent

A fólk hefur hærri laun en B fólkið

Það getur verið dýrkeypt að tilheyra svokölluðum B-hópi fólks. Þeir sem tilheyra A-hópnum hafa að meðaltali 7% hærri laun.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á vegum Rockwool stofnunarinnar í Danmörku. Rannsóknin náði til 4.000 einstaklinga á aldrinum 18 til 64 ára. Þeir voru meðal annars spurðir um tekjur og daglegar venjur sínar, þar á meðal hve lengi þeir svæfu og á hvaða tíma sólarhringsins.

Fyrir þá sem vita það ekki er B fólk þeir einstaklingar sem vakna seint á daginn og sofna seint að kvöldi. A fólk fer öfugt að það kemur sér á fætur fyrir allar aldir og sofnar í síðasta lagi eftir kvöldfréttir.

Í ljós kom að merkjanlegur munur var á tekjum morgunhanana og þeirra sem vilja helst lúra fram að hádegi. Fyrir hverjar 100 krónur danskar sem hinir morgunsvæfu höfðu í laun fengu morgunhanarnir 107 krónur.

Góðu fréttirnar fyrir hina morgunsvæfu eru að verulega hefur dregið úr þessum launamun á liðnum árum. Í sambærilegri könnun árið 2001 var munurinn þannig 13%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×