Íslenski boltinn

Eggert Gunnþór: Koma boltanum inn í teig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður íslenska landsliðsins, segir að liðið ætli að leggja meiri áherslu á sóknarleikinn þegar að Ísland mætir Kýpur á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland mætti Noregi á föstudagskvöldið en tapaði, 1-0, þar sem sigurmarkið kom úr vítaspyrnu þegar skammt var til leiksloka.

„Auðvitað vorum við svekktir til að byrja með en það er ágætis stemning engu að síður í hópnum. Nú er það bara næsti leikur og erum við staðráðnir í að ná í sigur,“ sagði Eggert en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Ísland vann síðast keppnisleik árið 2008 og neitar Eggert því ekki að leikmenn hungri í sigur. „Það er búið að ganga mikið á og ég held að það sé bara kominn tími á sigur,“ sagði hann.

Ísland sýndi þrátt fyrir tapið á föstudaginn ágæta takta inn á milli. Hann tekur undir að sóknarleikurinn þurfi að vera beittari.

„Við ætlum að mæta þeim framar á vellinum og reyna að skapa okkur fleiri færi. Við ætlum að reyna að stjórna leiknum og sjá svo hvað þeir segja við því.“

„Kantmennirnir voru ekki að nýtast okkur vel í Noregsleiknum og ef okkur kemst að koma boltanum inn í teig eru ekki margir betri en Kolli til að klára þau færi sem hann fær þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×