Enski boltinn

Chelsea og Arsenal bæði með sigurmörk á lokamínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Branislav Ivanovic fagnar hér sigurmarki sínu í dag.
Branislav Ivanovic fagnar hér sigurmarki sínu í dag. Mynd/AP
Chelsea er áfram með fimm stiga forskot á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 útisigur á Blackburn í dag. Branislav Ivanovic skoraði sigurmark Chelsea sjö mínútum fyrir leikslok en Alexandre Song tryggði Arsenal einnig sigur á West Ham með marki í lokin. Manchester City tapaði hinsvegar fyrir Wolves.

Chelsea vann 2-1 útisigur á Blackburn en liðið hafði aðeins fengið eitt stig úr tveimur síðustu útileikjum sínum fyrir þennan leik. Chelsea hefði líka getað tapað stigum á Ewood Park í dag eftir að hafa lent undir og gefið færi á sér í báðum hálfleikjum.

Benjani kom Blackburn í 1-0 á 22. mínútu þegar hann hafði betur í loftinu en John Terry og skallaði fyrirgjöf El Hadji Diouf í markið. Blackburn var mun betra liðið á vellinum og hefði átt að vera búið að ná stærri forustu og það kom síðan í bakið á liðinu.

Nicolas Anelka jafnaði leikinn sex mínútum fyrir hálfleik eftir að Didier Drogba skallaði fyrir fætur hans fyrirgjöf frá Florent Malouda. Anelka var að skora þarna í 11. sinn í 15 leikjum á móti Blackburn.

Jason Roberts fékk frábært færi til að koma Blackburn yfir aftur á 82. mínútu en skaut framhjá markinu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Branislav Ivanovic sigurmarkið með skalla eftir sendingu frá Yuri Zhirkov.

Arsenal vann 1-0 sigur á West Ham þökk sé sigurmarki Alexandre Song tveimur mínútum fyrir leikslok. Það leit út fyrir að Arsenal-liðinu ætlaði ekki að takast að brjóta niður varnarmúr West Ham en Song hélt uppteknum hætti og skoraði þriðja leikinn í röð.

Robert Green varði þrisvar frábærlega frá Arsenal-mönnum í fyrri hálfleiknum, Samir Nasri skaut síðan í slánna úr aukaspyrnu af 35 metra færi á 54. mínútu og Theo Walcott átti skot í stöng aðeins fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Markið lá því loftinu allan leikinn.

Úlfarnir unnu 2-1 sigur á Manchester City á Molineux en þetta var annað deildartap City í röð og liðið er nú átta stigum á eftir toppliði Chelsea. Þetta var líka fyrsti sigur Wolves síðan í fyrstu umferðinni 14. ágúst.

Emmanuel Adebayor kom Manchester City yfir úr vítaspyrnu eftir að David Silva var felldur en Nenad Milijas jafnaði leikinn sjö mínútum síðar eftir góðan undirbúning frá Christophe Berra.

David Edwards skoraði síðan sigurmark Úlfanna á 57. mínútu þegar hann fylgdi vel á eftir þegar Kolo Toure varð á marklínu frá Kevin Doyle.

Eiður Smári Guðjohnsen kom ekkert við sögu þegar Stoke tapaði sínum þriðja deildarleik í röð. Everton vann 1-0 sigur í leik liðanna á Goodison Park.

Tuncay skoraði mark á 60. mínútu en það var dæmt af þar sem að hann var dæmdur brotlegur. Aiyegbeni Yakubu kom síðan Everton í 1-0 sjö mínútum síðar þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti Tim Cahill.

Úrslit og markaskorarar íensku úrvalsdeildinni í dag:

Arsenal - West Ham 1-0

1-0 Alexandre Song (88.)

Blackburn - Chelsea 1-2

1-0 Benjani (22.), 1-1 Nicolas Anelka (39.), 1-2 Branislav Ivanovic (83.)

Everton - Stoke 1-0

1-0 Aiyegbeni Yakubu (67.)

Fulham - Wigan 2-0

1-0 Clint Dempsey (30.), 2-0 Clint Dempsey (44.),

Wolves - Man City 2-1

0-1 Emmanuel Adebayor, víti (23.), 1-1 Nenad Milijas (30.), 2-1 David Edwards (57.)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×