Enski boltinn

Viðskiptajöfur frá Singapúr með nýtt tilboð í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Lim, 57 ára milljarðamæringur frá Singapúr, hefur komið með nýtt og hærra tilbið í enska úrvalsdeildarliðið Liverpool. Lim bauð 360 milljónir punda í enska félagið í dag.

„Ég virði og dái Liverpool þar sem er mikil hefð og mikil saga," sagði Lim en eignir hans eru metnar á um 1,6 milljarða dollara eða um 180 milljarða íslenskra króna.

„Ég er ákveðinn í að byggja upp félagið á nýjan leik þannig að það getur aftur komist á þann stall sem það var í enskum og evrópskum fótbolta. Það er þess vegna að ég ákvað að koma með þetta nýja tilboð," sagði Lim.

Auk þess að borga 320 milljónir punda fyrir félagið þá er Lim tilbúinn að láta Roy Hodgson, stjóra Liverpool, fá 40 milljónir punda í að kaupa nýja leikmenn.

Þetta er 20 prósent hærra tilboð en stjórn Liverpool samþykkti frá eigendum bandaríska hafnarboltafélgsins Boston Red Sox. Lim bauð þá einnig í félagið á sama tíma en hefur nú hækkað fyrra tilboð sitt.

Dómstólar taka fyrir í dag hvort það hafi verið löglegt hjá stjórn Liverpool, með formanninn Martin Broughton í fararbroddi, að taka tilboði Bandaríkjamannanna gegn vilja eigendanna Hicks og Gillett.

Stóri dagurinn er síðan á föstudaginn þegar stórt lán fellur á Liverpool og setur það í gjaldþroti hafi ekki tekist að afla nýs fjármagns inn í félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×