Enski boltinn

Neymar segist ekki hafa talað við Chelsea í leyfisleysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar
Neymar Mynd/AP
Brasilíski táningurinn Neymar, sem skoraði í sínum fyrsta landsleik í vikunni og hefur slegið í gegn hjá Santos, neitar því að hafa verið að tala við Chelsea í leyfisleysi. Hann vill vera áfram hjá Santos.

Santos hafnaði 20 milljón evra tilboði í Neymar frá Chelsea um leið og félagið ásakaði Chelsea um ólöglegar viðræður við leikmanninn sinn og hótaði að fara með málið fyrir FIFA.

„Ég er mjög ánægður með að svona frábært félag hafi áhuga á mér en Santos er heimili mitt eins og er. Ég vil vera áfram hjá Santos, vinna flerii titla og hver veit síðan hvað gerist í framtíðinni," sagði Neymar.

Neymar var spurður aftur út í framtíðina á blaðamannafundinum og þá fauk í strákinn.

„Ég er að segja ykkur það að Neymar verður áfram hjá Santos, ertu heyrnarlaus," svaraði Neymar þá mjög pirraður. Hann sagðist ekkert hafa verið í sambandi við Chelsea.

„Ég var bara að frétta af þessu núna að menn séu að tala um að Chelsea hafi verið búið að tala við mig. Ég veit ekkert um það mál," sagði Neymar sem er með samning við Santos til ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×