Fótbolti

Torres nánast eina spurningamerkið fyrir byrjunarliðin í kvöld

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
AFP
Mun auðveldarar er að spá fyrir um byrjunarlið Hollendinga í stórleiknum í kvöld heldur en lið Spánverja. Hvorug þjóð á menn í leikbönnum eða við meiðsli að stríða. Hollendingar stilla væntanlega hefðbundið upp, með Martin Stekelenburg í markinu, Gregory van der Wiel, Johnny Heitinga, Joris Mathijsen og Giovani van Bronckhorst í vörninni. Mark van Bommel, Weslei Sneijder og Nigel de Jong verða væntanlega á miðjunni og fremstir þeir Dirk Kuyt, Arjen Robben og Robin van Persie. Aftasta lína Spánar er líklega hefðbundin, Iker Casillas í markinu, Juan Capdevila, Carles Puyol, Gerard Piqué og Sergio Ramos. Xabi Alonso og Serbio Busquets halda væntanlega sínum stöðum sem miðjumenn og Xavi og Andrés Iniesta sömuleiðis. Fremstur verður svo David Villa. Eina spurningin er hvort Fernando Torres komi aftur inn í byrjunarliðið fyrir Pedro. Litlar líkur eru á að Cesc Fabregas byrji þar sem Pedro spilar á kantinum. Ef Torres kemur inn verður hann fremstur og Villa dregur sig út á kantinn. Þá er lið Spánar, eins og stundum áður í keppninni, aðeins skipað eiginlegum miðjumönnum og sóknarmönnum en engum kantmönnum. Torres hefur sýnt að hann er magnaður leikmaður en hefur ekki verið upp á sitt besta á mótinu. Hann hefur ekki enn skorað en knattspyrnuskýrendur í Suður-Afríku eru ekki sammála um það hvort hann byrji leikinn eða ekki. Sumir telja öruggt að hann komi í liðið en aðrir telja það mjög ólíklegt og að Vicente del Bosque haldi sig við sama byrjunarlið og í undanúrslitunum þar sem Torres var á bekknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×