Enski boltinn

Wayne Rooney vill fá vetrarfrí í ensku deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/AP
Wayne Rooney, framherji Manchester United og enska landsliðsins, er kominn í hóp þeirra sem vilja fá vetrarfrí í ensku úrvalsdeildina í fótbolta en hann telur að þetta sé eina leiðin til þess að enska landsliðið verði samkeppnishæft á stórmótum.

Leikmenn enska landsliðsins voru þreyttir og orkulausir á HM í Suður-Afríku í sumar á meðan kollegar þeirra frá Spáni og Þýskalandi nutu góðs af vetrarfríi á sínu tímabili. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem enska landsliðið veldur vonbrigðum á HM eða EM.

„Vetrarfrí myndi ekki bara hjálpa enska landsliðinu heldur einnig ensku úrvalsdeildinni. Undir lok tímabilsins vantar oft ákefðina í suma leikina því þetta er langt tímabil og leikmenn hafa þá spilað alla leiki tímabilsins af mikilli ákefð," sagði Wayne Rooney í viðtali við Sunday Express.

Álagið á leikmenn í enska boltanum er einna mest þegar aðrar deildir í Evrópu eru í vetrarfríi því það er löng hefð fyrir því að spila marga leiki um jól og áramót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×