Enski boltinn

Torres byrjar að æfa aftur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres
Fernando Torres Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool fékk góðar fréttir í morgun þegar ljóst var að Fernando Torres sé búinn að ná sér af meiðslunum og byrji að æfa með liðinu í dag. Torres meiddist í upphafi leiks á móti Blackpool á dögunum og gat ekki tekið þátt í landsliðsverkefnum með Spánverjum vegna þeirra.

Peter Brukner úr læknaliði Liverpool sagði að endurhæfing hin 26 ára gamla Fernando Torres hafi gengið vel og það séu ágætar líkur á því að hann geti spilað derby-leikinn á móti Everton um helgina.

„Þetta gengur allt vel hjá Fernando. Hann tognaði lítillega í kviðvöðva snemma í leiknum á móti Blackpool," sagði Peter Brukner.

„Hann hefur verið í ákafri meðferð í tíu daga og hefur brugðist vel við henni. Hann getur byrjað að æfa aftur í dag og ef hann kemst vel af stað á æfingunum þá erum við bjartsýnir á að hann geti spilað á móti Everton," sagði Peter Brukner.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×