Fótbolti

Byrjar Arnór Sveinn eða Birkir Már í kvöld?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Rúrik Gíslason kemur líklega inn í byrjunarliði á nýjan leik.
Rúrik Gíslason kemur líklega inn í byrjunarliði á nýjan leik. Mynd/Daníel
Stærsta spurningin fyrir leik Íslands og Danmerkur í kvöld er hvort að Arnór Sveinn Aðalsteinsson eða Birkir Már Sævarsson verði í byrjunarliði íslenska liðsins í stað Grétars Rafns Steinssonar sem er meiddur.

Arnór Sveinn kom inn á sem varamaður fyrir Grétar Rafn þegar sá síðarnefndi fór af velli í leik Íslands og Noregs á föstudagskvöldið. Eftir að ljóst varð að Grétar Rafn færi ekki með til Danmerkur var Birkir Már kallaður í landsliðshópinn.

En þrátt fyrir það gæti Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, tekið þá ákvörðun að velja Birki Má beint í byrjunarliðið í kvöld. Birkir Már, leikmaður Brann í Noregi, hefur oftar spilað með íslenska landsliðinu og mögulegt að Ólafur láti þá staðreynd ráða för í kvöld.

Það kom nokkuð í opna skjöldu að Rúrik Gíslason, leikmaður danska úrvalsdeildarfélagsins OB, var ekki í byrjunarliði íslenska landsliðsins á föstudaginn. En líklegt er að hann komi í liðið í kvöld og spili þá á hægri kantinum. Gylfi Þór Sigurðsson, sem lék á hægri kantinum gegn Norðmönnum, fari þá í stöðu sóknartengiliðar og að Veigar Páll Gunnarsson missi þá sæti sitt í liðinu.

Líklegt byrjunarlið Íslands í kvöld:

Markvörður:

Gunnleifur Gunnleifsson

Varnarmenn:

Arnór Sveinn Aðalsteinsson eða Birkir Már Sævarsson

Kristján Örn Sigurðsson

Sölvi Geir Ottesen

Indriði Sigurðsson

Miðvallarleikmenn:

Rúrik Gíslason

Aron Einar Gunnarsson

Eggert Gunnþór Jónsson

Jóhann Berg Guðmundsson

Sóknartengiliður:

Gylfi Þór Sigurðsson

Framherji:

Heiðar Helguson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×