Fótbolti

Hálfsetinn Parken í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Parken.
Parken. Mynd/AFP
Dönsku landsliðsmennirnir hafa áhyggjur af því að ekki skuli vera meiri áhugi á leik Danmerkur og ÍSlands eins og raun ber vitni. Ekki er búist við því að fleiri en 16-18 þúsund manns verði á leiknum í kvöld en Parken, þjóðarleikvangur Dana, tekur 38 þúsund manns í sæti.

„Það eru vonbrigði hversu fáir miðar hafa selst á leikinn," sagði Daniel Agger við danska fjölmiðla. „Við vitum allir að það er einstök stemning á landsleikjum þegar Parken er fullur. Það hjálpar liðinu mikið. Ég vona bara að fleiri mæti í kvöld enda mikilvægur leikur í undankeppni EM þar sem þrjú stig eru í húfi."

Simon Kjær, leikmaður Wolfsburg, segir að taka verði einnig tillit til andstæðingsins. „Þetta er svekkjandi en við vitum líka að þegar við erum ekki að spila við landslið í fremstu röð þá er Parken sjaldan fullur. Það eina sem við getum gert er að vera beinir í baki í kvöld og vinna Ísland. Þá koma vonandi fleiri næst," sagði hann.

Morten Olsen, landsliðsþjálfari, hefur ekki miklar áhyggjur af þessu. „Við gerum allt sem við getum til að koma fram í fjölmiðlum og vekja athygli á liðinu. En það er góð stemning í hópnum og góð blanda af húmor og fagmennsku í honum."

„En það er alltaf einhverjir sem segja að það leikmenn danska liðsins hafi slæmt viðhorf og leggi sig ekki fram. Við getum ekkert gert í því. Eitt óvinsælasta landslið undanfarinna ára var liðið sem spilaði saman vorið 1992. Nokkrum vikum síðar varð liðið Evrópumeistari."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×