Enski boltinn

Steve Bruce: Peningar eru uppskrift fyrir vandræði

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Steve Bruce.
Steve Bruce.
Steve Bruce, stjóri Sunderland, lýsir yfir reiði vegna þess hversu valdamiklir leikmenn eru orðnir innan knattspyrnunnar. Ummæli hans birtust í kjölfar máls í kringum framherjann Wayne Rooney sem fór ekki framhjá neinum í síðustu viku.

Rooney greindi frá vilja sínum til að yfirgefa Manchester United snemma í síðustu viku en skrifaði svo óvænt undir nýjan fimm ára samning á föstudag. Samningurinn gerði þennan enska landsliðsmann að launahæsta leikmanni Manchester United frá upphafi en hann verður með 26 milljónir króna í vikulaun.

„Það erfiðasta við að vera knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni er að eiga við mikilmennskubrjálæðið," sagði Bruce.

„Það að halda mönnum niðri, ráðleggja þeim og líta eftir leikmönnunum. Eitt af því sem maður vill alls ekki er að félagið manns sé alltaf að fanga forsíðurnar," bætti hann við.

„Munurinn á því þegar ég var leikmaður og núna er sá að Bosman reglan hefur gefið leikmönnum mikil völd. Nú þurfum við að kljást við unga fótboltamenn sem eru orðnir milljónamæringar mjög snemma á ævinni. Það getur verið erfitt en þegar félag á borð við United er farið að eiga í vandræðum þá sýnir það hversu erfitt þetta er orðið."

„Það eina sem maður getur reynt að gera er að öðlast virðingu leikmanna, en það getur verið erfitt. Þessir leikmenn koma flestir frá fátækum fjölskyldum og það er ekki illa meint. En svo þegar þeir hljóta öll völd sem peningarnir gefa þá er það bara uppskrift fyrir vandræði," sagði Bruce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×