Enski boltinn

Shawcross er ósáttur með eineltið hjá Arsene Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Shawcross er fyrirliði Stoke.
Ryan Shawcross er fyrirliði Stoke. Mynd/AFP
Ryan Shawcross, varnarmaður Stoke og nýr liðsfélagi Eiðs Smára Guðjohnsen, er mjög ósáttur við einelti Arsene Wenger, stjóra Arsenal, sem heldur því fram að hann og Robert Huth stundi það að meiða mótherja sína viljandi.

Nýjustu ásakanir Wenger snúast um framkomu þeirra Shawcross og Huth í leik á móti Tottenham á dögunum þar sem stjóri Arsenal sagði þá hafa endalaust reynt að brjóta á Heurelho Gomes, markverði Tottenham. Wenger sagði að þeir litu frekar út fyrir að vera rúgbý-leikmenn en fótboltamenn.

Upphafið má þó rekja til þess að Ryan Shawcross fótbraut Aaron Ramsey í leik Stoke og Arsenal í fyrra en Wenger var afar reiður út í Shawcross eftir þann leik.

„Ég er ekkert á móti því að fólk hafi sínar skoðanir en ég sé enga ástæðu fyrir hann að tjá sig um leik hjá öðrum liðum hvað þá að taka út einstaka leikmenn eins og mig og Huthy," sagði Ryan Shawcross í viðtali við The Sentinel.

„Ég er búinn að horfa á leikinn aftur og ég kem aldrei nálægt Gomes. Ég hélt að ég hefði ekki gert það en var ekki alveg hundrað prósent viss og horfði því aftur á leikinn til öryggis," sagði Shawcross.

„Wenger hefur augljóslega eitthvað mikið á móti mér. Hann hefur líka alltaf eitthvað á móti Stoke, hvort sem það eru leikmennirnir eða stjórinn. Gagnrýni hefur almennt ekki áhrif á mig nema ef um er að ræða falskar ásakanir eins og þarna," sagði Shawcross.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×