Fótbolti

Iniesta býður Kasabian á leik og að gista heima hjá sér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Iniesta er þjóðhetja á Spáni.
Iniesta er þjóðhetja á Spáni.

Leikmenn spænska landsliðsins halda áfram að dásama bresku rokkhljómsveitina Kasabian sem þeir segja að hafi spilað stóran þátt í gengi liðsins á HM.

Nú síðast hetjan Andres Iniesta sem vill fá sveitina til Barcelona.

"Kasabian veitti okkur mikinn innblástur í búningsklefanum. Lagið Club Foot er lagið sem við höfum hlustað á áður en við förum út á völlinn í heilt ár. Ég vil endilega þakka þeim fyrir og gefa þeim eitthvað," sagði Iniesta.

"Mig langar að bjóða þeim til Barcelona og leyfa þeim að sjá leik Barcelona og Real Madrid á Camp Nou. Ég mun jafnvel sjá til þess að þeir fái að fara út á völlinn fyrir leik og sparka í bolta," sagði Iniesta sem vill síðan fara á skrallið með þeim.

"Svo getum við farið út eftir leik og átt villt kvöld saman í Barcelona og fagnað HM-titlinum almennilega. Þeir þurfa ekki heldur að hafa áhyggjur af hóteli því ég mun bjóða þeim að gista hjá mér svo þeir geti séð medalíuna. Þá getum við líka fengið okkur bjór saman og spilað ballskák heima hjá mér. Þetta er besta hljómsveit heims og ég vil fyrir hönd spænska landsliðsins þakka þeim fyrir. Við elskum þá."

Hér má svo heyra lagið Club Foot með Kasabian sem Spánverjarnir hlusta alltaf á fyrir leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×