Enski boltinn

Eiður: Mig skortir leikæfingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári á æfingu íslenska landsliðsins fyrir leik gegn Noregi fyrir réttu ári síðan.
Eiður Smári á æfingu íslenska landsliðsins fyrir leik gegn Noregi fyrir réttu ári síðan. Mynd/Vilhelm

Eiður Smári Guðjohnsen segir í samtali við BBC í dag að hann skorti leikæfingu eftir að hafa æft einn síns liðs í nokkrar vikur.

Eiður var staddur hér á landi í síðasta mánuði og æfði þá sjálfur. Þá lá ljóst fyrir að hann myndi ekki vera áfram í herbúðum franska liðsins AS Monaco.

„Ég þarf bara að fá að spila fótbolta. Ég þarf að spila leiki og fá eins margar mínútur og ég mögulega get," sagði hann. „Það eru takmörk á því hvað hægt er að gera einn síns liðs."

„En ég hef þó verið að æfa og er því í ágætu formi. Þetta snýst bara um að koma sér aftur á skrið með reglulegum æfingum með liðinu og að ég nái aftur mínu besta fram með því að spila leiki."

Eiður er þó ekki með íslenska landsliðinu sem mætir Noregi og Danmörku í undankeppni EM 2012 á næstu dögum. Síðast spilaði hann í 1-1 jafntefli Íslands og Liechtenstein í ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×