Innlent

Flutningur hælisleitenda til Grikklands verði stöðvaður

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International.
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Amnesty International leggur til að öll aðildarríki Dyflinnar-reglugerðarinnar stöðvi nú þegar allan flutning hælisleitenda til Grikklands. Í nýrri skýrslu samtakanna, Dyflinnar gildran, kemur fram að einstaklingar sem sendir eru til Grikklands á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar eiga á hættu að verða fyrir margvíslegum mannréttindabrotum, þar með talið að vera fluttir nauðugir til staða þar sem þeir eiga á hættu ofsóknir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty. Í skýrslunni er að finna úttekt á áhrifum reglugerðarinnar á réttindi hælisleitenda og nákvæma skoðun á aðstæðum þeirra í Grikklandi.

„Dregið er fram hvernig grísk yfirvöld hafa brugðist að veita hælisleitendum sanngjarna málsmeðferð. Þeir hafa ekki fullnægjandi aðgang að lögfræðiráðgjöf, túlkaþjónustu og nauðsynlegum upplýsingum. Dæmi eru um að hælisleitendum hafi verið vísað nauðugum til Tyrklands," segir í tilkynningunni.

Þar segir að skýrslan sýni fram á að forsenda Dyflinnar-reglugerðarinnar, að öll ríki sem eiga aðild að reglugerðinni veiti flóttamönnum samsvarandi vernd, standist ekki. Hælisleitendur sem komi fyrst til Grikklands standi oftar en ekki frammi fyrir brotum á mannréttindum og ógn um öryggi sitt.

„Frá því í apríl 2008, hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt aðildarríki Dyflinnar-reglugerðarinnar til að senda ekki hælisleitendur aftur til Grikklands. Þessi krafa Flóttamanna-stofnunarinnar var gerð vegna alvarlegra bresta í meðferð hælismála í Grikklandi, auk þess sem móttaka og aðstæður hælisleitenda í landinu eru óásættanlegar. Rannsókn Amnesty International sýnir að ástandið hefur versnað enn frekar, einkum eftir gildistöku laga í júlí 2009 þar sem áfrýjunarréttur hælisleitenda er skertur."

Að mati Amnesty International er ljóst að hælisleitendur í Grikklandi njóti ekki nauðsynlegrar verndar og réttindi þeirra séu ekki virt að fullu. „Þrátt fyrir þetta halda ríki, sem eiga aðild að Dyflinnar-reglugerðinni, áfram að senda fólk til baka til Grikklands. Þau lönd sem endursenda hælisleitendur þangað verða að horfast í augu við þá staðreynd að hælisleitendur þar njóta ekki þeirrar verndar sem alþjóðalög kveða á um. Amnesty International leggur til að öll aðildarríki Dyflinnar-reglugerðarinnar stöðvi nú þegar allan flutning hælisleitenda til Grikklands."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×