Enski boltinn

Owen gæti hætt ef hann fær ekki nýjan samning hjá Man Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen.
Michael Owen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Owen hefur gefið það í skyn að hann er að íhuga það að leggja skónna á hilluna ef að hann fær ekki nýjan saming hjá Manchester United eftir þetta tímabil. Hinn 30 ára Owen hefur glímt við langvinn meiðsli aftan í læri og af þeim sökum lítið spilað með United á þessu tímabili.

Owen hefur aðeins byrjað inn á í sex leikjum með Manchester United síðan að hann kom á Old Trafford fyrir síðasta tímabil. Það hefur ekki hjálpað framtíð hans hjá félaginu að mexíkanski framherjinn Javier Hernandez hefur slegið í gegn á þessari leiktíð.

„Ég vildi helst fá að vera áfram en þið verðið að spyrja stjórann um næstu skref. Ég gæti skorað í þessari deild í mörg ár til viðbótar og ég myndi elska það að fá að vera hjá svona toppklúbbi eins og Manchester United," sagði Michael Owen í viðtali við The Sun.

„Ég vil ekki fara til lélegra liðs í ensku úrvalsdeildinni. Ég gæti skorað mörk hjá þeim en ég myndi ekki njóta mín," sagði Owen.

„Leikur minn hentar ekki fyrir lið sem er í basli og það kemur ekki til grein að spila í neðri deildum. Ég hef kynnst því að spila með toppliðum og með liðum í basli og ég get ekki líkt þessu tvennu saman," sagði Owen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×