Enski boltinn

Tottenham bíður eftir staðfestingu á félagskiptum Van der Vaart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael van der Vaart í leik með Real Madrid.
Rafael van der Vaart í leik með Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Félagaskipti Rafael van der Vaart frá Real Madrid til Tottenham eru enn óstaðfest en starfsmenn ensku úrvalsdeildarinnar eru að skoða málið þessa stundina.

Tottenham bauð í leikmanninn aðeins tveimur klukkustundum áður en félagaskiptaglugginn lokaði í gær.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, sagði í gær að til hefði staðið að leikmaðurinn yrði seldur til Bayern München fyrir átján milljónir punda en að sú kaup hefðu ekki gengið í gegn.

„Ég held að hann hafi verið á leiðinni til Bayern München fyrir átján milljónir en skyndilega varð hann mun ódýrari," sagði Redknapp. „Hann er falur fyrir um átta milljónir. Hann er mjög góður leikmaður. Hann spilar með hollenska landsliðinu og er frábær knattspyrnumaður. Ef þetta gengur í gegn tel ég þetta séu kjarakaup fyrir slíkan gæðaleikmann."

Sjálfur virðist Van der Vaart viss í sinni sök um að hann muni spila með Tottenham. Hann segist hæstánægður með launakjörin en hann mun á samningstímabilinu fá ellefu milljónir evra í sinn hlut.

„Fjögur ár hjá Tottenham fyrir ellefu milljónir evra," sagði Van der Vaart. „Ég á erfitt með að trúa þessu sjálfur. Það er synd að ég fæ ekki að spila gegn Ajax í Meistaradeildinni en mæti þess í stað FC Twente."

„Áhugi Tottenham kom upp með mjög litlum fyrirvara og ég hafði ekki mikinn tíma til að hugsa mig um. En ég vil fá að spila fótbolta aftur og í hverri viku ef það er mögulegt og það með mjög fallegu félagi. Ég er afar hamingjusamur."

Van der Vaart hefur á ferli sínum spilaði í hollensku, þýsku og spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×