Enski boltinn

Tony Mowbray sestur í stjórastólinn hjá Middlesbrough

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Mowbray.
Tony Mowbray. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tony Mowbray er tekinn við stjórastöðunni hjá enska liðinu Middlesbrough en liðið hefur verið stjóralaust síðan að Gordon Strachan sagði starfi sínu lausu í síðustu viku.

Paul Ince, Phil Brown og Gary Megson voru einnig orðaðir við starfið á Riverside en forráðamenn Middlesbrough ákváðu að veðja á einn leikjahæsta leikmann félagsins frá upphafi.

Tony Mowbray, sem er 46 ára gamall, lék 424 leiki fyrir Middlesbrough á árunum 1982 til 1991. Hann hafði verið stjóri hjá bæði skoska liðinu Hibernian sem og West Brom áður en hann tók Celtic fyrir síðasta tímabil. Mowbray entist þó aðeins til mars hjá Celtic.

Tony Mowbray fær verðugt verkefni því Middlesbrough er í hópi þriggja neðstu liða b-deildarinnar eftir að hafa náð aðeins í 11 stig út úr fyrstu þrettán leikjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×