Enski boltinn

Rocha: Hélt að hann hefði brotið á mér andlitið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Portúgalinn Rocha er langt frá því að vera sáttur.
Portúgalinn Rocha er langt frá því að vera sáttur.

„Ég hélt að hann hefði brotið á mér andlitið," segir varnarmaðurinn Ricardo Rocha hjá Portsmouth sem fékk að finna fyrir því í viðskiptum við Florent Malouda, leikmann Chelsea.

Rocha þurfti að fara í aðgerð á kinnbeini eftir að hafa fengið olnbogaskot frá Malouda í leik liðanna í vikunni. Hann telur þetta hafa verið viljaverk hjá Malouda.

„Hann hugsaði ekkert um boltann. Svona tilburðir eru stórhættulegir og þetta hefði átt að vera rautt spjald en ekki gult," segir Rocha sem var borinn af velli með súrefnisgrímu. Meiðsli hans eru ekki alvarleg en hann verður þó fjarri góðu gamni í leik gegn Tottenham á morgun.

Sjálfur heldur Malouda fram sakleysi sínu og að þetta hafi aðeins verið slys. Hann mun ekki fá refsingu vegna atviksins frá enska knattspyrnusambandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×